Valur jafnaði í dag metin í 1:1 í undanúrslitaeinvígi sínu við Stjörnuna á Íslandsmóti kvenna í handknattleik, með naumum 25:24-sigri í æsispennandi öðrum leik liðanna í Mýrinni í Garðabæ.
Hart var barist í fyrri hálfleik þar sem lítið skildi á milli liðanna.
Þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður náði Stjarnan tveggja marka forystu, 7:5. Heimakonur héldu henna þó ekki lengi þar sem Valur sneri taflinu við og komst einu marki yfir, 9:8.
Ekki leið á löngu þar til Stjarnan komst í forystu á ný, 11:10.
Áfram héldu liðin að skiptast á að komast yfir og var staðan jöfn, 13:13, þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik.
Valur lauk hins vegar hálfleiknum á því að skora tvö síðustu mörk hans og leiddu því með tveimur mörkum, 15:13, í hálfleik.
Þrátt fyrir að Valur hafi fengið litla markvörslu í fyrri hálfleik kom það ekki að sök þar sem liðið lék firna sterkan varnarleik. Sama mátti segja um Stjörnuna lengst framan af í hálfleiknum.
Í síðari hálfleik herti Valur enn frekar tökin í varnarleiknum þar sem Stjarnan átti í stökustu vandræðum með að finna glufur.
Valur hélt sömuleiðis dampi í sókninni og náði fljótlega fjögurra marka forystu, 20:16.
Eftir það tók Stjarnan sérstaklega vel við sér og minnkaði muninn niður í aðeins eitt mark, 22:21.
Valur hristi þá af sér tímabundið slen sitt, skoraði tvö mörk í röð og leiddi með þremur mörkum, 24:21, þegar rúmar átta mínútur voru til leiksloka.
Stjarnan lagði þó ekki árar í bát og skoraði þrjú mörk í röð. Staðan orðin jöfn og í hönd fóru æsispennandi lokamínútur.
Bæði lið misstu boltann trekk í trekk en Lilja Ágústsdóttir kom boltanum í markið þegar hún kastaði yfir nánast allan völlinn í autt markið.
Helena Rut Örvarsdóttir fékk tækifæri til þess að jafna metin þegar 13 sekúndur voru eftir af leiknum en Sara Sif Helgadóttir varði laglega og tryggði Val sigurinn.
Þriðji leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda á miðvikudagskvöld.