Ísland gæti lent með Færeyjum í riðli á Evrópumóti karla í handknattleik í Þýskalandi á næsta ári.
Með sigrinum á Eistum í gær tryggði Ísland sér efsta sæti riðilsins og í leiðinni sæti í efsta styrkleikaflokk mótsins. Ásamt Íslandi í styrkleikaflokki eitt eru Svíþjóð, Spánn, Danmörk, Frakkland og Noregur.
Í styrkleikaflokki tvö eru svo Þýskaland, Holland, Slóvenía, Ungverjaland, Portúgal og Austurríki.
Þriðji styrkleikaflokkurinn ógnarsterkur
Þriðji styrkleikaflokkurinn eru svo ógnarsterkur en þar eru Króatía, Bosnía, Pólland, Tékkland, Serbía og Norður-Makedónía.
Svo í fjórða styrkleikaflokki eru nágrannar okkar í Færeyjum sem komust á sitt fyrsta stórmót í gær. Ásamt þeim færeysku í fjórða styrkleikaflokki eru Sviss, Rúmenía, Svartfjallaland, Grikkland og Georgía.
Dregið verður í riðla tíunda maí en Ísland er nú þegar sett í C-riðil og mun íslenska liðið byrja mót sitt í München. Þýskland er sett í riðil A, Króatía í riðil B, Noregur í riðil D, Svíþjóð í riðil E og Danmörk í riðil F.
Það er því ljóst að Ísland mun ekki vera með Þýskalandi eða Króatíu í riðli.