„Ég er eiginlega ekki búin að átta mig á þessu ennþá. Ætli það komi ekki í haust þegar mann er örugglega farið að kitla í fingurna?“ segir handknattleikskonan Hanna Guðrún Stefánsdóttir í samtali við Morgunblaðið.
Hanna Guðrún tilkynnti það á dögunum að hún hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna, 44 ára að aldri, eftir magnaðan og einkar farsælan 28 ára feril.
„Ég sagði þarna einu sinni að það væru 99,5 prósent líkur á að ég myndi hætta en satt að segja er þetta í fyrsta skipti sem ég íhugaði það af alvöru að hætta. Ég efast um að ég reimi aftur á mig skóna.“
Hvað tekur nú við hjá handknattleiksgoðsögninni?
„Það er bara að vera með fjölskyldunni og syninum, sem er hamingjusamasta barn í heimi eftir að ég hætti. Svo fer ég að finna mér eitthvað.“
Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.