Ég skynjaði mikið sjálfstraust í hópnum

Ásgeir Örn Hallgrímsson fagnar í leikslok.
Ásgeir Örn Hallgrímsson fagnar í leikslok. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var stoltur af sínu liði eftir að Haukar tryggðu sér sigur á Aftureldingu 23:17 í Mosfellsbæ og eru því komnir í úrslitaeinvígið gegn ÍBV um íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla.

„Fyrst og fremst er þetta léttir í bland við mikla gleði. Það var erfitt að tapa síðasta leik á heimavelli og ég fann það strax þegar við mættum hingað í kvöld strákarnir voru algjörlega klárir og ég skynjaði sjálfstraust. Lykilaugnablik í leiknum eru þessi tvö hraðaupphlaupsmörk sem við náum í lok fyrri hálfleiks sem kveikja í okkur.

Síðan nær Stebbi (Stefán Rafn Sigurmannsson) einhverju frákasti og skorar og þetta eru svona augnablik þar sem ég fann að orkan magnaðist og við náðum að nýta hana á réttan hátt.“

Eftir 50 mínútur þá fer Aron Rafn Eðvarðsson heldur betur í gang og lokar markinu ásamt því að skora tvö mörk. Er hann lykillinn að sigrinum?

„Hann er alvöru sigurvegari. Hann fann smjörþefinn af þessu. Við þéttumst varnarlega, þeir þreytast og fara að taka verri skot og Aron lætur ekki bjóða sér svoleiðis tvisvar og skellir í lás“

Nú fáið þið þrjá heila daga í hvíld fyrir leikinn gegn ÍBV. Er það gott eða slæmt að ÍBV sé búið að vera í svona löngu fríi?

„Það er ekki nokkur spurning að það er þeim í hag að hafa fengið svona gott frí og stutt í næsta leik. En það þýðir ekkert að væla yfir því og nú förum við bara í góða endurheimt og svo mætum tilbúnir í næsta leik gegn ÍBV,“ sagði Ásgeir Örn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert