Ég var í smá krísu

Aron Rafn fagnar vel í leikslok.
Aron Rafn fagnar vel í leikslok. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Aron Rafn Eðvarðsson var klárlega maður leiksins í liði Hauka þegar það vann Aftureldingu í kvöld, 23:17, og komst þar með í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta gegn ÍBV sem hefst á laugardaginn í Vestmannaeyjum.

Aron Rafn varði 14 skot í marki Hauka í leiknum, þar af eitt vítaskot og skoraði einnig tvö mikilvæg mörk í lokakafla leiksins.

„Ég eiginlega nennti ekki framlengingu,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson hlæjandi þegar hann var spurður út í frábæran síðari hálfleik gegn Aftureldingu í kvöld.

„Mér fannst ég eiga fullt inni. Ég var í smá krísu. Ég var að ofhugsa hlutina alltof mikið. Ég átti gott spjall við Aron Kristjánsson og Pál Ólafsson í gærkvöldi. Þeir hjálpuðu mér fullt. Ég var að missa einbeitinguna of snemma.

Ég hélt henni í dag og hún small heldur betur í síðari hálfleik. Maður þarf að taka það sem er jákvætt út úr þessu einvígi og staðan er núna 0-0 og við verðum bara að ná kröftum fyrir leikinn á laugardaginn,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert