Fram samdi við efnilegan leikmann

Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín í treyju Fram.
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín í treyju Fram. Ljósmynd/Fram

Handknattleikskonan Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín hefur skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild Fram.

Alfa Brá kemur frá HK, sem féll úr úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili.

Hún er aðeins 18 ára gömul og þykir mikið efni enda verið í stóru hlutverki hjá HK og yngri landsliðum Íslands undanfarin ár. Alfa Brá er á leið á EM 2023 í sumar með U19-ára landsliðinu.

„Fram er stórveldi í handbolta, ég hef mikla trú á stefnu þjálfarans og þeirri hugmyndafræði sem verið er að byggja á.

Liðið er góð blanda af ungum leikmönnum og þrautreyndum landsliðsmönnum sem æfa við aðstæður sem eru með þeim bestu á Íslandi. Ég hlakka til framhaldsins,“ sagði Alfa Brá í tilkynningu frá handknattleiksdeild Fram.

„Það skiptir öllu máli fyrir okkur að ná í þá bestu og efnilegustu leikmenn sem völ er á hverju sinni. Það gerum við með því að ná í Ölfu Brá.

Hún hefur verið mjög góð á undanförnum árum og við sjáum fyrir okkur að hún muni vaxa enn frekar og dafna innan okkar raða,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert