Stuðningsmaður Hauka, sem virtist hrinda Igor Kopyshynskyi, leikmanni Aftureldingar, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ í síðustu viku, gæti átt yfir höfði sér refsingu vegna framferðis síns.
Upp úr sauð undir lok venjulegs leiktíma þegar Kopyshynskyi braut á Ólafi Ægi Ólafssyni alveg upp við áhorfendastúkuna.
Stefán Rafn Sigurmannsson, leikmaður Hauka, ýtti þá við Kopyshynskyi áður en stuðningsmaður Hauka virtist blanda sér í málið og hrinda Úkraínumanninum.
Kopyshynskyi fékk rautt spjald fyrir brot sitt vegna „mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar,“ en það var síðar dregið til baka þar sem dómarar leiksins viðurkenndu mistök.
Vísir greinir frá því að hegðun stuðningsmannsins sé nú á borði Róberts Geirs Gíslasonar, framkvæmdastjóra HSÍ, sem segir að búið sé að hafa samband við bæði félög.
Róbert Geir íhugar nú næstu skref í málinu en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um það.
Afturelding og Haukar mætast í oddaleik í undanúrslitaeinvígi sínu í Mosfellsbæ í kvöld.