Haukar í úrslit eftir sigur í oddaleik

Geir Guðmundsson fremstur í flokki í fögnuði Haukamanna eftir leik.
Geir Guðmundsson fremstur í flokki í fögnuði Haukamanna eftir leik. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Haukar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í handbolta með 23:17-útisigri á Aftureldingu í oddaleik í Mosfellsbæ. Haukar mæta ÍBV í úrslitum. 

Gríðarleg spenna var fyrir leikinn og var Íþróttamiðstöðin Varmá orðin troðfull löngu áður en leikurinn hófst. Mikil spenna var í húsinu og mátti ekki miklu muna að þakið rifnaði af húsinu.

Leikurinn var í járnum í byrjun. Haukar komust mest í stöðuna 3:1, áður en Afturelding jafnaði og komst í stöðuna 4:3. Afturelding leiddi síðan það sem eftir var af hálfleiknum og komst mest þremur mörkum yfir. Haukamenn minnkuðu svo muninn fyrir hálfleik í 11:10 fyrir Aftureldingu.

Guðmundur Bragi Ástþórsson Haukamaður í leiknum í kvöld.
Guðmundur Bragi Ástþórsson Haukamaður í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Síðari hálfleikur hófst af miklum krafti og byrjaði Afturelding á að tapa boltanum í fyrstu sókn sinni. Haukar jöfnuðu þá leikinn. Afturelding komst aftur yfir áður en Haukamenn jöfnuðu leikinn enn á ný og komust síðan yfir. Jafnræði var á með liðunum framan af síðari hálfleik en í stöðunni 16:16, þegar tíu mínútur voru eftir, þá skellti Aron Rafn Eðvarðsson í lás.

Hann varði hvert skotið á fætur öðru og skoraði þar að auki tvö þvert yfir völlinn. Lið Aftureldingar mölbrotnaði og sá aldrei til sólar eftir þetta. Leikurinn endaði með sex marka sigri Haukamanna, 23:17.

Í liði Hauka skoraði Andri Már Rúnarsson fimm mörk, líkt og Blær Hinriksson hjá Aftureldingu. Aron Rafn Eðvarðsson varði 14 skot í liði Hauka en Brynjar Vignir varði níu skot í marki Aftureldingar.

Það verða því Haukar sem mæta ÍBV í fyrsta leik úrslitaeinvígisins í Vestmannaeyjum á laugardag.

Afturelding 17:23 Haukar opna loka
60. mín. Geir Guðmundsson (Haukar) fiskar víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert