Hef enn trú á við getum tekið þetta

Harpa Valey Gylfadóttir.
Harpa Valey Gylfadóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við náum ekki að klára okkar færi,“ sagði svekkt Harpa Valey Gylfadóttir, leikmaður ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 22:25-tap liðsins gegn Val í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handbolta á Hlíðarenda í kvöld.

„Við erum að brenna af fullt af dauðafærum sem skilur liðin að. Við erum alltaf að elta og náum aldrei að ná þeim almennilega. Við fengum alltaf mark í bakið og það er erfitt,“ sagði Harpa.

Valur náði fjögurra marka forystu um miðjan fyrri hálfleik og tókst ÍBV ekki að jafna eftir það. „Valur er með mjög gott lið og það er mjög erfitt að ná að eltast við þær, þegar við náum ekki að spila vörnina eins og við viljum. Við vorum að elta allan leikinn og náðu þeim ekki.“

Harpa Valey verst Söru Dögg Hjaltadóttur í kvöld.
Harpa Valey verst Söru Dögg Hjaltadóttur í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Valur er nú með 2:0-forystu í einvíginu og verður meistari með sigri í þriðja leik liðanna í Vestmannaeyjum á laugardag. Þrátt fyrir erfiða stöðu, var Harpa brött þegar talið barst að þriðja leiknum og möguleikum ÍBV í einvíginu.

„Það er alltaf gaman að spila heima og ég veit það verður stemning. Ég hef enn trú á við getum tekið þetta. Ég er spennt fyrir næsta leik og við mætum vel stemmdar í hann,“ sagði hún og benti á að ÍBV vilji alls ekki sjá Val verða meistara á sínum heimaveli.

„Ekki á okkar heimavelli. Maður mætir alltaf dýrvitlaus í leiki í Eyjum, fyrir framan fólkið okkar. Þau mættu líka vel í kvöld, eins og á alla leiki, en í Vestmannaeyjum er þetta einhver önnur stemning,“ sagði Harpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert