Markvörðurinn Sara Sif Helgadóttir átti mjög góðan leik fyrir Val er liðið lagði ÍBV, 25:22, í öðrum leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta á Hlíðarenda í kvöld. Varði hún 18 skot og átti stóran þátt í sigrinum.
Er Valur nú með 2:0 forskot í einvíginu og verður Íslandsmeistari með sigri í þriðja leik í Vestmannaeyjum á laugardag.
„Við náðum að halda okkar köflum lengur en þær. Við vorum einu skrefi á undan þeim, en mér fannst þetta samt aldrei öruggt. Mér leið eins og þetta hafi verið jafnt leikur og það sama má segja um fyrsta leikinn í Eyjum. Ég var ekki róleg þegar við vorum sjö mörkum yfir og tvær mínútur eftir. Maður er alltaf á nálum,“ sagði Sara við mbl.is eftir leik.
Valskonur hafa nú unnið báða leiki liðanna í einvíginu til þessa, þrátt fyrir að Thea Imani Sturludóttir sé að glíma við meiðsli, en Thea hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins til þessa.
„Við erum með rosalega góðan hóp og nú er liðsheildin að koma inn í þetta. Það eru fleiri að stíga upp og við erum að hafa ógeðslega gaman að þessu. Thea skilur eftir sig stórt skarð, því að mínu mati er hún búin að vera besti leikmaður deildarinnar. Við höfum gert mjög vel í að fylla í það skarð með liðsheildinni,“ útskýrði Sara.
Hún fékk höfuðhögg í fyrri hálfleik, þegar Sunna Jónsdóttir skaut óvart í höfuð markvarðarins. Sara hefur áður verið úr leik vegna höfuðhöggs, en hún virðist hafa sloppið vel í kvöld.
„Ég er góð núna, á meðan adrenalínið er enn í gangi. Það er asnalegt að segja þetta, en þetta var eins góður staður á höfðinu til að fá högg á og hægt er. Þetta var framan á höfuðið, en ekki í gagnaugað. Vonandi verður þetta allt í lagi.“
Staða Valskvenna er orðin góð og dugir sigur í þriðja leik á laugardaginn til að verða Íslandsmeistari. Sara á von á erfiðum leik í Vestmannaeyjum.
„Þetta er enn ótrúlega jafnt. Við höfum unnið tvo mjög jafna leiki og við erum að fara í sturlaðan leik á móti geggjuðu liði. Við getum ekki gefið tommu eftir. Það verður enn þá sætara að ná í titilinn þar, ef hann kemur,“ sagði Sara.