Snorri Steinn Guðjónsson, sem hefur verið í viðræðum við HSÍ um starf landsliðsþjálfara karla í handknattleik, gæti verið á leið til síns gamla félags í Danmörku, GOG.
Vísir skýrir frá því í dag að forráðamenn GOG hafi sett sig í samband við Snorra en félagið er að leita að þjálfara eftir að ljóst varð að Nicolej Krickau væri á förum þaðan til að taka við þjálfarastöðunni hjá Flensburg í Þýskalandi.
Krickau var einmitt áður einn þeirra sem komu til greina í starf landsliðsþjálfara Íslands.
Viðræður Snorra Steins og HSÍ hafa staðið yfir í nokkurn tíma en reiknað hafði verið með að gengið yrði frá samningum á næstu dögum. Snorri var leikmaður með GOG á árunum 2012-2014.