Valskonur eru komnar í 2:0 í einvígi sínu gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir 25:22-heimasigur í öðrum leik liðanna í kvöld. Valur getur þar með orðið meistari með sigri í þriðja leik liðanna í Vestmannaeyjum á laugardag.
Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 4:4 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Stuttu síðar komst Valur tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn, 7:5. Nokkrum mínútum síðar var staðan orðin 10:6 og Valur komin með völd á leiknum.
Sara Sif Helgadóttir byrjaði að verja afar vel í markinu, á meðan Valskonur voru skynsamar í sínum sóknarleik og bjuggu til góð færi úr flestum sóknum. Að lokum munaði fimm mörkum í hálfleik, 14:9.
ÍBV gekk illa að minnka muninn að einhverju ráði framan af í seinni hálfleik, en hafði þó minnkað hann niður í fjögur mörk þegar tíu mínútur voru liðnar, 18:14. Næstu mínútur fékk ÍBV nokkur færi til að minnka muninn í tvö mörk, en án árangurs.
Þess í stað var munurinn enn fjögur mörk, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir, 21:17. Valskonur komust svo fimm mörkum yfir, þegar fjórar mínútur voru eftir, og var þá ljóst hvort liðið færi með sigur af hólmi.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 9 mörk fyrir Val og Sara Sif Helgadóttir varði 18 skot í markinu. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir gerði 11 mörk fyrir ÍBV og Marta Wawrzynkowska varði 17 skot í markinu.