Mikil eftirvænting ríkir fyrir oddaleik Aftureldingar og Hauka í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í kvöld.
Sæti í úrslitaeinvígi gegn ÍBV er í húfi og í gærkvöldi seldist upp á leikinn á einu augabragði. Leikurinn fer fram í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ klukkan 20.15 í kvöld.
Handbolti.is greinir frá því að von sé á annað þúsund áhorfenda, metfjölda á handboltaleik að Varmá.
Til þess að koma öllum fyrir þarf Afturelding að setja upp viðbótaraðstöðu í formi palla og stóla í keppnissalnum.
Hófst sú vinna í morgun og kvaðst Haukur Sigurvinsson, formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar, í samtali við Handbolta.is reikna með því að mynd yrði komin á aðstöðuna nú í hádeginu.