„Eiginlega lygilegt í alla staði“

Aron Rafn Eðvarðsson fagnar eftir að hafa varið skot í …
Aron Rafn Eðvarðsson fagnar eftir að hafa varið skot í gærkvöldi. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Í gærkvöldi varð það ljóst að Haukar mæta ÍBV í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handknattleik karla.

Markvörðurinn öflugi, Aron Rafn Eðvarðsson, átti þá stórleik í 23:17-sigri Hauka á Aftureldingu í oddaleik í undanúrslitunum er hann varði 15 skot, þar af níu í röð í síðari hluta síðari hálfleiks.

Í úrslitunum mætir Aron Rafn nokkrum fyrrum liðsfélögum sínum í ÍBV, en hann lék með Eyjamönnum í eitt sérlega farsælt tímabil, 2017/2018, þegar liðið gerði sér lítið fyrir og vann þrefalt; Íslandsmeistaratitilinn, bikarmeistaratitilinn og deildarmeistaratitilinn.

„Það tímabil var náttúrlega ótrúlegt og eiginlega lygilegt í alla staði. Við vorum með frábært lið og frábæran þjálfara sem gerði það að verkum að við kláruðum þetta allt og það frekar sannfærandi.

Það er geggjað að vera að fara til Eyja og mér þykir rosalega vænt um Vestmannaeyjar og fólkið þar. Hvað þá leikmennina sem ég spilaði með sem eru í Vestmannaeyjaliðinu.

En núna er ég í rauða liðinu og eitthvað sem gerðist fyrir nokkrum árum skiptir engu máli núna,“ sagði Aron Rafn í samtali við mbl.is.

Fyrsti úrslitaleikur ÍBV og Hauka fer fram í Vestmannaeyjum á laugardag.

Ítarlega er rætt við Aron Rafn á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert