Guðmundi hrósað í hástert í Danmörku

Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danski handboltasérfræðingurinn Peter Bruun Jörgensen hrósaði Guðmundi Þórði Guðmundssyni, þjálfara danska úrvalsdeildarfélagsins Fredericia, í hástert í pistli sem hann birti á heimasíðu danska miðilsins TV 2 á dögunum.

Guðmundur Þórður, sem er 62 ára gamall, tók við þjálfun danska liðsins síðasta sumar og fór ekkert sérstaklega vel af stað á tímabilinu.

Liðið hefur hins vegar leikið frábærlega á seinni hluta tímabilsins og er komið áfram í undanúrslit úrslitakeppninnar þar sem Fredericia mætir Aalborg.

Heilinn á bak við allt

„Ákafur 6-0 varnarleikur liðsins hefur verið frábær og þá hafa markverðirnir Thorsten Fries og Emil Tellerup gert kraftaverk líka,“ skrifaði Jörgensen í umfjöllun sinni.

„Sóknarleikur liðsins hefur verið frábær, sérstaklega þegar þeir hafa farið í sjö á sex, þar sem Kristian Stoklund hefur stýrt sókninni eins og hershöfðingi. 

Heilinn á bak við þetta allt, og skipulag liðsins, er harðduglegi þjálfarinn Guðmundur Guðmundsson. Fingraför hans sjást vel á liðinu 

Hann eyðir öllum deginum, og líklegast nóttunni líka, í að spá í handbolta. Hann er mjög næmur á öll smáatriði og svo stýrir hann liðinu af stakri snilld á hliðarlínunni.

Ákefð hans á hliðarlínunni smitar út frá sér til leikmanna liðsins og það sést innilega að öll vinnan sem hann hefur lagt á sig hefur skilað sér,“ segir enn fremur í umfjölluninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert