Balingen tryggði sér sæti í efstu deild þýska handboltans með 30:28-útisigri á Coburg í 2. deildinni í kvöld. Liðið staldraði stutt við í 2. deild, því það féll úr efstu deild á síðustu leiktíð.
Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk fyrir Balingen í kvöld, en Daníel Þór Ingason komst ekki á blað. Tumi Steinn Rúnarsson skoraði fimm fyrir Coburg.
Balingen er með 56 stig, níu stigum á undan Eisenach og tíu á undan N-Lübbecke þegar fjórar umferðir eru eftir.
Örn Vésteinsson komst ekki á blað er N-Lübbecke mátti þola tap gegn Norhorn á heimavelli, 27:28.