„Þetta var skrítið og skemmtilegt. Þetta var ótrúlegt hvernig maður einhvern veginn datt inn í þetta á seinasta kortérinu. Ég var ekki búinn að vera nægilega góður í þessu einvígi og átti mikið inni,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, sem fór á kostum í oddaleik liðsins gegn Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik á þriðjudagskvöld.
Aron Rafn varði alls 15 skot í leiknum og var með tæplega 50 prósenta hlutfallsmarkvörslu. Síðasta stundarfjórðunginn múraði hann einfaldlega fyrir markið, varði níu skot í röð, skoraði tvö mörk sjálfur og lagði þannig grunninn að frábærum sigri, 23:17.
„Ég færði mér kannski þreytuna hjá Aftureldingu í nyt. Það voru ekki alveg eins miklar þrumur frá Þorsteini Leó [Gunnarssyni], Birki [Benediktssyni] og Blæ [Hinrikssyni]. Svo náði ég að nýta reynsluna í þessum hornaskotum.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.