Gummersbach lagði Bergischer að velli, 37:34, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag og lyfti sér með því á nýjan leik upp í efri hluta deildarinnar.
Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, er nýliði í deildinni í vetur og hefur átt gott tímabil þar sem það hefur verið um eða fyrir ofan miðja deildina.
Með sigrinum fór Gummersbach upp fyrir Bergischer og í áttunda sætið en bæði lið eru með 30 stig.
Elliði Snær Viðarsson lét mikið að sér kveða og skoraði sex mörk fyrir Gummersbach í dag en Hákon Daði Styrmisson náði ekki að skora. Arnór Þór Gunnarsson skoraði ekki fyrir Bergischer.
Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, vann öruggan sigur á Wetzlar, 38:29, og er í 13. sæti af 18 liðum með 27 stig. Liðinu hefur ekki gengið vel undanfarnar vikur eftir að Viggó Kristjánsson heltist úr lestinni vegna meiðsla.