Landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoruðu nær helming marka Kolstad í dag þegar liðið gerði út um undanúrslitaeinvígið gegn Runar í norska handboltanum.
Kolstad vann fjórða leik liðanna á útivelli, 27:23, og vann því með einvígið 3:1. Janus Daði skoraði sjö mörk í leiknum og Sigvaldi skoraði fimm.
Kolstad mætir Elverum, liði Orra Freys Þorkelssonar, í úrslitaeinvíginu en þar er ekki meistaratitill í húfi. Liðið sem vinnur úrvalsdeildina er norskur meistari og Kolstad var þar sigurvegari með miklum yfirburðum. Í úrslitakeppninni eru hinsvegar Evrópusæti í húfi.