Staðfestir viðræður GOG við Snorra

Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður danska handknattleiksfélagsins GOG hefur staðfest að Snorri Steinn Guðjónsson sé einn þeirra sem komi til greina sem næsti þjálfari karlaliðs félagsins.

„Snorri er á listanum og þar eru líka nokkrir danskir þjálfarar. Ég hef talað við Snorra. Hann er spennandi þjálfari," sagði formaðurinn, Kasper Jörgensen, við danska blaðamanninn Oliver Preben Jörgensen, sem hefur ummælin eftir honum á Twitter.

GOG, sem er í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og í fjögurra liða úrslitunum um danska meistaratitilinn, missir þjálfarann Nicolej Krickau til Flensburg í Þýskalandi eftir tímabilið. Snorri lék með GOG á árunum 2012 til 2014 og hefur þjálfað Val frá 2017. Hann hefur þótt líklegastur til að taka við starfi landsliðsþjálfara Íslands en nú er komin samkeppni um hann frá GOG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert