Danski handboltasérfræðingurinn Bent Nyegaard telur að Aron Kristjánsson og Arnór Atlason séu tveir af þremur bestu kostum hjá danska liðinu GOG í stöðu nýs þjálfara liðsins.
GOG, sem féll í gær út í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Barcelona, missir þjálfarann Nicolej Krickau til Flensburg í Þýskalandi eftir tímabilið.
Komið hefur fram að forráðamenn félagsins hafa m.a. rætt við Snorra Stein Guðjónsson um að hann tæki mögulega við liðinu af Krickau í sumar.
Nyegaard, sem þjálfaði bæði Fram og ÍR á sínum tíma og var síðan þjálfari GOG sagði við TV2 Sporten að hann sæi fyrir sér þrjá þjálfara sem bestu kostina fyrir danska félagið.
Andy Schmid, svissneski landsliðsmaðurinn sem á að taka við landsliði Sviss á næsta ári er efstur á lista hjá Nyegaard. Þá yrði frábært að fá landsliðsþjálfarann Nikolaj Jacobsen inn sem aðstoðarþjálfara með Schmid, sem lék áður undir stjórn Jacobsens með Rhein-Neckar Löwen.
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein, er í öðru sæti hjá Nyegaard. „Hann þekkir danskan handbolta mjög vel sem leikmaður og síðan þjálfari. Hann er með gríðarlega reynslu af því að þjálfa bæði félagslið og landslið og hefur sýnt að hann getur þróað lið," segir Nyegaard.
Hann setur síðan Arnór Atlason í þriðja sæti en hann er að ljúka störfum sem aðstoðarþjálfari Aalborg. „Nú yrði GOG í erfiðri stöðu. Arnór Atlason á nefnilega að taka við sem aðalþjálfari Holstebro á næsta tímabili en hann myndi henta GOG frábærlega. Núna er hann að hætta sem aðstoðarþjálfari Aalborg og þjálfari dönsku unglingalandsliðanna. Hvort GOG geti keypt hann lausan frá Holstebro veit ég ekki," segir Íslandsvinurinn.