Alltaf best að vera hjá pabba

Valskonur fagna vel í leikslok.
Valskonur fagna vel í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ásdís Þóra Ágústsdóttir varð í dag Íslandsmeistari í handbolta, eftir 25:23-sigur á ÍBV í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins. Valur vann einvígið 3:0 og Íslandsmeistaratitilinn í leiðinni.

„Við byrjuðum að vinna öruggan sigur í fyrsta leik og mér fannst við vera skrefinu á undan í þessu einvígi. Þetta var spennandi í dag, en heilt yfir fannst mér við vera betri og áttum þetta skilið,“ sagði Ásdís í samtali við mbl.is.

Hún segir það hafa hjálpað hve vel Valskonur nýttu breiddina í einvíginu gegn ÍBV. „Já 100%. Það voru samt 3-4 dagar á milli leikja, þannig þær fengu alveg hvíld. Í leikjunum sjálfum fengum við meiri hvíld, því við vorum að rúlla þessu betur.“

Ásdís spilar undir stjórn föður síns Ágústs Jóhannssonar hjá Val. „Ég er orðin vön því. Ég fékk pásu frá því í eitt og hálft ár, en það er alltaf best að vera hjá honum.“

Hún fór að láni til Selfoss á miðju tímabili og fékk að spila sig betur í gang eftir erfið meiðsli. Hún sneri svo aftur til Vals og er nú Íslandsmeistari.

„Það hefur hjálpað mér gríðarlega mikið. Ég gat spilað 60 mínútur. Það hjálpaði mér að komast til baka í mitt besta form. Ég var frá í ár og mér fannst ég þurfa að spila 100 prósent. Ef ég var ekki að fara að fá það hjá Val þá vildi ég fara annað. Ég mæli með því að fara á lán og spila til að fá traustið.“

Hún hrósaði stuðningsmönnum beggja liða. „Við hugsuðum til okkar stuðningsmanna og vildum klára þetta fyrir framan þá og þessa geðveiku stuðningsmenn ÍBV. Það er geggjað að spila hér og hafa meirihlutann á móti sér. Það er geðveik læti og stemning og þarna.“

Hún á von því að vera áfram hjá Val, en draumurinn er að snúa aftur í atvinnumennsku. „Ég er allavega samningsbundin og ég býst við því. Við sjáum hvað gerist. Atvinnumennskan er enn draumur og við sjáum hvað gerist,“ sagði Ásdís.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert