Ég fer heim og verð róleg, nei djók

Mariam fagnar vel í leikslok.
Mariam fagnar vel í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég vaknaði í morgun og ég ætlaði mér að lyfta þessum bikar í dag,“ sagði Mariam Eradze, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skipti.

Mariam skoraði sex mörk fyrir Val í 25:23-sigri á ÍBV í þriðja leik liðanna í úrslitum og átti stóran þátt í að Valur vann 3:0-sigur í einvíginu. ÍBV jafnaði í 23:23 þegar skammt var eftir, en Valur skoraði tvö síðustu mörkin.

„Þetta var erfiður leikur og erfiðasti leikurinn í þessu einvígi. Mér leið einhvern veginn eins og við höfum verið undir allan tímann, þótt við vorum einu skrefi á undan. Þetta var mjög erfiður leikur og þær voru geggjaðar í dag,“ sagði hún.

Valskonur fögnuðu vel í dag, eftir að hafa misst af deildar- og bikarmeistaratitlunum eftir harða baráttu við ÍBV. Mariam hrósaði góðri liðsheild og sagði hana eiga stóran þátt í sigrinum.

Mariam sækir að marki ÍBV í dag.
Mariam sækir að marki ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við erum búnar að tapa bikarúrslitum og deildinni eftir naum tap á móti þeim. Við vildum taka þennan stóra heim. Við nýttum pásuna sem við fengum mjög vel og við náðum að smyrja okkur vel saman.

Við erum með meiri breidd og bestu leikmennirnir þeirra fá ekki sömu hvíld og við. Liðsheildin okkar var frábær og við vorum aðallega að pæla í okkur. Við vorum ekki að pæla mikið í þeim, eins og við gerðum í hinum úrslitaleikjunum,“ sagði hún.

Mariam var að klára sitt þriðja tímabil í Val og hún segir titilinn afar kærkominn, eftir erfið ár þar á undan.

„Þetta er búið að vera mjög erfið bið. Ég kom í Val og þetta voru vonbrigði í byrjun. Ég náði ekki að sýna mitt rétta andlit eftir að koma heim úr atvinnumennsku. Það er erfitt að koma heim í þennan handbolta. Þetta er allt öðruvísi stíll og það tók tvö tímabil að láta þetta smella saman,“ sagði hún.

Mariam fann sig vel í einvíginu gegn ÍBV, í fjarveru Theu Imani Sturludóttur, sem hefur verið að glíma við meiðsli.  

„Mér líður vel undir pressu. Við vissum á leikdegi fyrir fyrsta leik að Thea væri dottin út. Þá ákváðum við að allir þyrftu að gefa meira í, allir þyrftu að gefa 10-15 prósent meira,“ útskýrði Mariam.

Hún viðurkenndi að það sé ekki rólegt kvöld fram undan, enda fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í hús. „Ég fer heim og verð róleg. Nei djók. Þetta verður svakalegt djamm og við djömmum alla leið heim úr Herjólfi, sama hversu hátt hann fer í öldunum,“ sagði Mariam lauflétt að lokum.   

Mariam í hörðum slag í dag.
Mariam í hörðum slag í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert