„Get varla beðið fram á þriðjudag“

Ásgeir Örn Hallgrímsson á hliðarlínunni í dag.
Ásgeir Örn Hallgrímsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, segist ekki geta beðið eftir að mæta ÍBV í næsta leik eftir tap liðsins í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV leiðir einvígið nú 1:0 þökk sé 33:27 sigri liðsins en Haukar voru 16:21 yfir þegar vel var liðið á leikinn.

„Mér fannst við byrja að gefa aðeins eftir varnarlega á þessum kafla þegar þeir koma sér inn í þetta, við vorum búnir að vera frábærir varnarlega en vorum svo ekki að taka á móti þessum stóru árásum frá þeim.

Það blandaðist síðan inn í tvo tæknifeila og klikkuð skot, þá voru þeir komnir inn í þetta og náðu að nýta sér þann meðbyr mjög vel. Við vorum ekki nægilega klókir að svara,“ sagði Ásgeir en þetta er 17:6 kafli undir lokin sem Eyjamenn ná, má kalla þetta hrun hjá gestunum?

„Hrun og ekki hrun, jú auðvitað er þetta of mikið, það er klárt mál. Þetta var leiðinlegt fannst mér að sjálfsögðu en svona er þetta.“

Haukar voru í svakalegri seríu á móti Aftureldingu og hafa leikið þrjá leiki eftir að ÍBV sló FH-inga úr leik, Ásgeir vill þó ekki nota það sem afsökun.

„Já, en það er engin afsökun fyrir þessu, við vitum alveg hvernig planið er og svona er úrslitakeppnin. Ég hefði bara átt að rúlla meira,“ sagði Ásgeir en einungis fimm leikmenn hjá Haukum skora mark í leiknum áður en Ólafur Ægir Ólafsson var sjötti og síðasti Haukamaðurinn til að skora í leiknum á 49. mínútu. Ásgeir sagðist mögulega sjá eftir því að hafa ekki rúllað liðinu betur.

Ásgeir deyr þó ekki ráðalaus og segist vera með leikplan til að vinna þetta ÍBV lið.

„Ég held það, við sáum það í leiknum í dag að þetta verður hörku einvígi, þeir voru betri en við í leiknum í dag og það er bara þannig. Við tökum á móti þeim með kassann úti á þriðjudaginn.“

Stuðningur Eyjamanna skipti ÍBV miklu máli í dag en sama verður væntanlega uppi á teningnum á þriðjudaginn á Ásvöllum.

„Já algjörlega, þetta er mjög skrýtið þar sem það eru rosalega fáir hérna útaf veðri og öðru. Aðstæður eru bara þannig, það gat enginn gert neitt í þessu og við gerðum eins vel úr þessu og hægt var. Við vissum þetta og vorum búnir að tala um þetta og notum ekki sem afsökun.“

Haukar geta þó tekið mikið út úr leiknum þar sem liðið lék frábærlega í 40 mínútur, fram að því var Rúnar Kárason varla með í leiknum en hann hefur verið besti leikmaður ÍBV á leiktíðinni. Ásgeir segist vera með gott lið sem geti unnið ÍBV.

„Alveg klárlega, ég held að það sé ekki nokkur spurning um það, ég get varla beðið fram á þriðjudag eftir því að spila við þá aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert