Held ég fái frí frá karlinum í kvöld

Þórey Anna kampakát á leiðinni að taka við verðaununum sem …
Þórey Anna kampakát á leiðinni að taka við verðaununum sem besti leikmaður úrslitakeppninnar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var kampakát þegar hún ræddi við mbl.is í dag, enda nýorðin Íslandsmeistari í handbolta með Val eftir 25:23-útisigur á ÍBV í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna í Vestmannaeyjum.

„Mér líður ógeðslega vel. Það er ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu. Þetta er með betri tilfinningum sem maður finnur,“ sagði Þórey.

ÍBV jafnaði í 23:23 þegar skammt var eftir, en Valur skoraði tvö síðustu mörkin, tryggði sér sigur í leiknum og 3:0-sigur í einvíginu. „Þetta var orðið ansi tæpt og mjög spennandi. Það fór aðeins um mann í seinni hálfleik, en hafði einhvern veginn aldrei trú á öðru en við myndum vinna.“

ÍBV var á fljúgandi siglingu í deildarkeppninni og er ríkjandi deildar- og bikarmeistari. Þrátt fyrir það vann Valur 3:0-sigur í einvíginu.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir er besti leikmaður úrslitakeppninnar árið 2023.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir er besti leikmaður úrslitakeppninnar árið 2023. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta sýnir hvað við erum góð liðsheild. Við erum búnar að tapa bikar- og deildarmeistaratitli á móti þeim í vetur, en svo komum við fullar sjálfstraust í úrslitakeppnina og klárum þetta.“

Í leikslok var Þórey valin besti leikmaður úrslitakeppninnar, aðeins einu og hálfu ári eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn.

„Ég er frekar stolt af þessum verðlaunum. Ég átti barn fyrir einu og hálfu ári og það hefur verið mikil vinna að koma til baka. Að uppskera með þessum verðlaunum og Íslandsmeistaratitli er geggjað.“

En fær Þórey að fagna titlinum, eða fer hún beint heim að svæfa?

„Ég held ég fái nú frí frá karlinum í kvöld,“ sagði Þórey skellihlæjandi að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert