Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, stýrði Eyjamönnum til sigurs í fyrsta leik liðsins í úrslitaeinvíginu gegn Haukum í dag. Eyjamenn voru 16:21 undir en unnu lokakaflann 17:6, magnaður viðsnúningur.
„Við fengum aðeins meira flot á boltann og menn fóru í sterkari árásir sóknarlega, markvarslan og 5-1 vörnin kom okkur líka inn í leikinn með hraðaupphlaupum og öðru. Þetta er í þriðja skiptið sem við gerum þetta núna á stuttum tíma, eins og Kári (Kristján Kristjánsson) sagði í viðtali einhvern tímann, við þurfum alltaf að vera búnir að koma okkur mjög í erfiða stöðu svo það kveikni á mannskapnum og þeir sýni hvað þeir geta. Stundum þarf maður að taka úr handbremsu.“
Stuðningurinn í stúkunni var frábær og Eyjamenn nýttu sér hann vel.
„Ég sagði við strákana í leikhléinu sem við tókum að við værum í Vestmannaeyjum, við erum ekki að fara að líta svona út, líkamstjáningin og allt það, burt séð frá því sem við vorum að gera inni á vellinum. Við þurfum að berjast með okkar fólki, vera með þeim í liði og þau með okkur.“
Andri Már Rúnarsson og Guðmundur Bragi Ástþórsson skoruðu flest mörk Hauka framan af og í raun allan leikinn. Þetta varð erfiðara fyrir þá eftir að Eyjamenn breyttu í 5-1 vörnina.
„Við vissum það, við ræddum í fyrri hálfleiknum líka að þeir væru komnir með 10 mörk af 14, Guðmundur og Andri, þeir eru búnir að vera svakalega sterkir og góðir. Það er erfitt að kljást við þá en það fór aðeins að draga af þeim í lokin á meðan við náðum að rótera aðeins fleirum,“ sagði Erlingur en leikstjórn hans í leiknum var virkilega góð, leikhléin skiluðu góðum árangri og þegar ÍBV breytti um vörn fór allt að smella.
Haukar eru búnir að spila þrjá virkilega erfiða leiki við Aftureldingu eftir að ÍBV kláraði FH-inga í þremur leikjum, var það eitthvað sem hjálpaði ÍBV á lokakaflanum í dag?
„Já, það getur alveg verið, að sama skapi fannst mér við hikstandi sóknarlega lengi, kannski var pásan þá aðeins of löng, tempóið ekki nógu gott á æfingum eða eitthvað. Það er hægt að fara í fullt af vangaveltum, verkefni þjálfaranna eru misjöfn og skemmtileg.“
15-20 stuðningsmenn Hauka lögðu leið sína til Vestmannaeyja til að fylgjast með leik dagsins, það skal þó tekið fram að siglt var til Þorlákshafnar og enginn draumur að þurfa að ferðast í gær til að sjá leik dagsins, býst Erlingur við fleiri Eyjamönnum á leik 2?
„Það skiptir allt máli með samgöngur, því verr og miður var siglt í Þorlákshöfn, því við viljum líka fá gestina hingað og taka vel á móti þeim og gera mikla stemningu úr þessu. Vonandi verður Landeyjahöfn á þriðjudaginn og fullt hús hjá Haukunum.“