„Þetta gerist ekki betra. Að vinna þetta á útivelli er líka sturlað,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að hún varð Íslandsmeistari í handbolta eftir sigur á ÍBV.
„Við erum bestu vinkonur og það hjálpar okkur. Það er extra sætt að vinna þetta eftir vonbrigðin í deildinni og bikarnum,“ sagði Elín, en ÍBV vann bæði deildar- og bikarmeistaratitilinn eftir baráttu við Val.
Valskonur voru með meiri breidd í úrslitaeinvíginu og nýtti hana vel. „Í úrslitakeppni er mikilvægt að nýta breiddina og líka að ná því í gegnum tímabilið. Við höfum gert það mjög vel og Gústi gert vel í að dreifa álaginu og gefið okkur mikið traust.“
Fjölmargir stuðningsmenn Vals lögðu leið sína til Vestmannaeyja í dag. „Það er ótrúlegt að fólk hafi lagt þetta á sig, fram og til baka frá Þorlákshöfn. Það er ómetanlegt. Ég verð áfram í Val og held áfram að berjast fyrir titlunum með þessu liði,“ sagði Elín Rósa.