Þórey Anna Ásgeirsdóttir var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar í handbolta eftir að Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í dag. Valur vann ÍBV á útivelli í dag, 25:23, og vann þar með einvígið 3:0.
Þórey Anna var frábær í einvíginu og fór fyrir Valsliðinu. Hún skoraði 5 mörk í fyrsta leiknum og svo 9 mörk í næstu tveimur leikjum. Samtals gerði hún 23 mörk í þessum þremur leikjum. Einnig var Þórey frábær í undanúrslitaeinvíginu á móti Stjörnunni.
Þórey var kampakát í viðtali við Jóhann Inga Hafþórsson, blaðamann Íþróttadeildar mbl.is, í Vestmannaeyjum í dag og sagðist vera stolt af verðlaununum. Aðeins er liðið eitt og hálft ár síðan Þórey eignaðist barn og segir hún að mikil vinna hafi farið í að komast til baka.