Tóku einhvern mesta trylling sem ég hef séð

Liðsmenn ÍBV fagna með Hvíta Riddaranum eftir leikinn í dag.
Liðsmenn ÍBV fagna með Hvíta Riddaranum eftir leikinn í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ísak Rafnsson, leikmaður ÍBV, tekur sjaldan fyrirsagnirnar að leikjum loknum en hann lék virkilega vel í liði ÍBV í dag þar sem hann blokkaði sex skot í vörn Eyjamanna er liðið vann endurkomusigur á Haukum. Lokatölur 33:27 en Ísak segir Hvítu riddarana stuðningsmannasveit ÍBV hafa verið lykilinn að endurkomunni.

„Við unnum þetta þegar Hvítu riddararnir tóku einhvern mesta trylling sem ég hef séð, síðasta korterið í leiknum. Þeir gáfu okkur svo mikla orku, fram að því höfðum við ekki verið að spila neitt svakalega vel en það gaf okkur aukaorku og við gáfum vel í.“

Það var mjög augljóst hve mikið stuðningur Eyjamanna gerði fyrir leikmenn liðsins.

„Hann skiptir okkur öllu máli, við sækjum gríðarlega orku í stúkuna. Þetta skiptir okkur öllu máli.“

Ísak er að fara í sitt fyrsta úrslitaeinvígi með ÍBV, þó enn í hvítu treyjunni, en Ísak lék lengi með FH-ingum. Honum þykir gaman að keppa við Hauka.

„Mér hefur alltaf þótt ógeðslega gaman að spila á móti Haukum, bæði þegar ég var í FH og líka núna með ÍBV. Það er saga hérna á milli líka og ég ætla að fá að njóta þess alveg í botn að fá að spila úrslitaeinvígi með ÍBV á móti Haukum.“

Eyjamenn voru vel gíraðir í byrjun og fengu tvær tveggja mínútna brottvísanir í fyrstu vörninni, Ísak fékk aðra þeirra. Síðan tóku Haukar aðeins yfir leikinn og leiddu hann lengi vel.

„Mér fannst við eiginlega ekki verið með, það vantaði upp á hjá okkur sóknar- og varnarlega, það sem gerðist síðasta korterið í leiknum var svo frábært.“

Eyjamenn eiga 17:6 kafla eftir að Haukar komast 16:21 yfir, það eru ótrúlegar tölur.

„Við eigum þetta til, ég veit ekki hvað það er en þetta er búið að vera lengi hjá okkur í vetur. Við þurfum alltaf að lenda undir til þess að kveikja almennilega á okkur, eigum við ekki að segja að það sé búið núna.“

Allir leikmenn ÍBV fengu að spila í dag og allir með hlutverk í sigrinum, það hjálpaði þegar leið á.

„Við erum með stóran hóp og við erum að nýta hann, það er klárlega styrkleiki hjá okkur sem við ætlum að nýta okkur.“

Einungis tveir útileikmenn ÍBV skoruðu ekki mark í dag, Ísak Rafnsson og síðan Ívar Bessi Viðarsson sem kom inn á lokakaflanum og límdi vörnina saman á þessum frábæra kafla ÍBV.

„Talandi um það að ég skori ekki í þessum leik, þá vel ég mín móment, ég skora bara mikilvæg mörk,“ sagði Ísak að leik loknum eftir flottan sigur ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert