Unnum þetta á liðsheildinni

Sara Sif Helgadóttir fagnar vörslu í leiknum í dag.
Sara Sif Helgadóttir fagnar vörslu í leiknum í dag. mbl.is/Sigfús Gunnar

Sara Sif Helgadóttir, markvörður Valskvenna, átti góðan leik í dag líkt og í hinum leikjum úrslitaeinvígis liðsins gegn ÍBV. Sara var meidd á vormánuðum en kom til baka af krafti og var lykillinn í því að Valskonur næðu að landa Íslandsmeistaratitlinum í dag.

ÍBV hafði unnið Val í baráttunni um hina tvo titlana er Sara var fjarri góðu gamni. Leiknum í dag lauk með 23:25 sigri Valskvenna, sem unnu einvígið 3:0.

„Við unnum þetta á liðsheildinni, stemningunni og svo var vörnin að klikka vel. Við náðum hraðaupphlaupunum og þetta var í raun bara liðsheildin, allir voru að skila sínu,“ sagði Sara Sif en hún sagðist hafa verið stressuð á köflum.

„Ég var alveg frekar róleg fyrir fyrsta leikinn en fyrir leik tvö þá var ég alveg í hnút og síðan í leik þrjú var ennþá meiri hnútur.“

ÍBV vann eins og áður segir tvo titla á leiktíðinni með sigrum á Valskonum en þar var Sara fjarri góðu gamni í bikarúrslitunum og á lokakafla deildarinnar, hún segir það hafa verið erfitt að horfa á þá leiki.

„Það var geggjað að vera með núna, ég var ekkert að búast við því og ég gæti ekki verið ánægðari. Ég grét alveg yfir því að horfa á bikarleikinn, ég viðurkenni það alveg, það var ótrúlega erfitt að sitja uppi í stúku og geta ekki gert neitt til að hjálpa.“

Valskonur eru með góðan leikmannahóp sem þær nýttu vel í einvíginu.

„Algjörlega, ég held að það hafi verið mikilvægur partur í þessu að við vorum að spila á ferskum leikmönnum allan tímann, á meðan ÍBV hefur 7-8 leikmenn til að spila á.“

Hlynur Morthens er markmannsþjálfari Valskvenna og hjálpar mikið til.

„Hann er einn besti leikgreinandi sem ég veit um,“ sagði Sara en teymið í kringum lið Vals er virkilega gott og fékk teymið gott hrós í viðtali sem tekið var við Ágúst Jóhannsson, þjálfara liðsins.

„Þetta er búið að vera í toppmálum hjá Val, ég hef aldrei verið í jafn professional liði, þannig ég er mjög sátt.“

Einhver orðrómur hefur verið á lofti um að Hafdís Renötudóttir sé á leið í Val en Ágúst Jóhannsson, þjálfari, blés að þær sögusagnir í sjónvarpsviðtali eftir leikinn. Mun Sara vera áfram hjá Val?

„Það er allavega staðan núna, ég er ekki að spá í neinu öðru nema því. Ég verð áfram í Val og er nýbúin að endursemja við liðið, það er staðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert