Valur Íslandsmeistari eftir spennuleik í Eyjum

Valskonur fagna Íslandsmeistaratitlinum í dag.
Valskonur fagna Íslandsmeistaratitlinum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valur varð í dag Íslandsmeistari kvenna í handbolta í 18. sinn með 25:23-sigri á útivelli gegn ÍBV í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins. Valur vann einvígið með sannfærandi hætti, 3:0. Aðeins Fram hefur orðið oftar meistari, eða 23 sinnum.

Valskonur voru örlitlu skrefi framar nánast allan fyrri hálfleikinn, en náðu aldrei meira en tveggja marka forskoti. Að lokum munaði einu marki í hálfleik, 13:12.

ÍBV gat helst þakkað Mörtu Wawrzynkowska fyrir að munurinn hafi ekki verið meiri, því hún varði oft á tíðum glæsilega frá Valskonum í góðum færum. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV og Mariam Eradze gerði slíkt hið sama fyrir Val í hálfleiknum. 

Valskonur komust þremur mörkum yfir í fyrsta skipti í upphafi seinni hálfleiks, 15:12. Skömmu síðar var munurinn fjögur mörk, 18:14 og ÍBV í slæmum málum.

Eyjakonur neituðu hins vegar að gefast upp og þegar sjö mínútur voru eftir var munurinn aðeins eitt mark, 23:22. Liðunum gekk illa að skora næstu mínútur, því staðan var enn 23:22 þegar þrjár mínútur voru eftir.

Harpa Valey Gylfadóttir jafnaði í 23:23 þegar skammt var eftir, en Mariam Eradze kom Val aftur yfir þegar ein og hálf mínúta var eftir. Hrafnhildur Hanna var hársbreidd frá því að jafna í lokasókn ÍBV, en hún negldi í slána. Thea Imani Sturludóttir gulltryggði svo sigur Vals í lokasókn leiksins og Valskonur fögnuðu innilega.

Hrafnhildur Hanna skoraði níu mörk fyrir ÍBV og Harpa Valey Gylfadóttir sex. Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði níu fyrir Val og Mariam Eradze gerði sex. 

ÍBV 23:25 Valur opna loka
60. mín. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir (ÍBV) á skot í slá Hársbreidd frá því að jafna aftur. Úffff.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert