Íslendingalið Volda féll í dag úr norsku úrvalsdeildinni í handknattleik eftir grátlegt tap á heimavelli fyrir Oppsal, 33:34, eftir framlengdan leik.
Oppsal vann fyrsta leik liðanna, 28:21, en Volda vann annan leikinn, 30:24, og var því um hreinan úrslitaleik að ræða í dag.
Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Volda og Katrín Tinna Jensdóttir gerði tvö mörk. Rakel Sara Elvarsdóttir spilaði ekki með liðinu í dag.
Þetta var siðasti leikur Halldórs Stefáns Haraldssonar með Volda en hann er á heimleið og mun taka við karlaliði KA. Þá var þetta einnig kveðjuleikur Katrínar Tinnu en hún hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið Skara um að spila með því á næsta tímabili.