Aalborg vann öruggan sigur á Fredericia, 31:22, þegar Íslendingaliðin áttust við í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla í Álaborg í dag.
Aron Pálmarsson skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar í liði Aalborg, þar sem Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark og gaf þrjár stoðsendingar í liði Fredericia, sem Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar.
Töluvert jafnræði var með liðunum lengi vel en eftir að Einar Þorsteinn minnkaði muninn niður í 25:22 þegar tæpar 14 mínútur voru eftir af leiknum skellti Aalborg í lás og gestirnir skoruðu ekki eitt einasta mark til viðbótar.
Annar leikur liðanna fer fram í Fredericia á miðvikudagskvöld.