Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var ánægður með tímabilið hjá sínu liði en þurfti að horfa á Valskonur lyfta Íslandsmeistarabikarnum í Vestmannaeyjum í gær. ÍBV tapaði einvíginu 3:0 og fyrri tveimur leikjunum nokkuð sannfærandi, sá þriðji var jafn og spennandi alveg fram á lokasekúndurnar.
„Fyrst og fremst á breiddinni, það var þannig, það er engin afsökun því auðvitað eigum við að vera með breidd. Auðvitað munar okkur rosalega um Birnu (Berg Haraldsdóttur) og síðan létum við leikmann fara í desember. Þó að mórallinn hafi batnað þá vantar hana í róteringuna, það var aðalástæðan,“ sagði Sigurður aðspurður hvar liðið hefði tapað möguleikanum á Íslandsmeistaratitlinum.
Leikurinn í dag var jafn og skemmtilegur.
„Þetta var frábær leikur í raun, spennandi og allt í góðu. Ég var ekkert ósáttur nema með hvernig við byrjuðum leikinn, þær voru helvíti flottar, Mariam byrjaði þetta helvíti sterkt. Við vorum að elta þær og vorum búnar að ná þeim, ég er svo stoltur af þessu liði, Hönnu, Sunnu, Elísu og þeim öllum sem eru að spila hérna 50-60 mínútur alveg á fullu. Ég gat ekki beðið um neitt meira.“
Eyjakonur fengu margar sóknir og langar sóknir til þess að jafna leikinn undir lokin, sér Sigurður eftir þvi að hafa ekki tekið leikhlé?
„Já, svolítið, mér fannst við vera með mómentið og ég hugsaði líka að ég þyrfti kannski að eiga leikhléið á síðustu 10 sekúndunum. Ég sat uppi með helvítis spjaldið í vasanum, þetta er það leiðinlegasta við að vera þjálfari, stundum gerir maður þetta rétt og stundum ekki.“
Er þetta sanngjörn niðurstaða?
„Já, engin spurning. Þær voru bara betri en við, ég óska þeim til hamingju og þetta eru flottir Íslandsmeistarar.“
Þó nokkrir Valsarar komu með skemmtiskipinu Herjólfi til Vestmannaeyja frá Þorlákshöfn til þess að taka þátt í gleðinni með sínu fólki.
„Til sóma hjá þessu fólki, ég hefði viljað sjá fleiri en allavega þetta fólk eru ekki grenjuskjóður í mínum huga að láta einhverja Þorlákshöfn stoppa sig.“
Hefði Sigurður tekið þessu fyrir tímabilið, vinna tvo af þremur titlum og tapa í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn?
„Já, allan daginn, engin spurning. Auðvitað er maður sár og svekktur núna en ég ætla alveg að viðurkenna það að ég var kýldur niður þegar við misstum Birnu, þó maður segi ekkert fyrr en núna. Þetta var rosalegt högg, Birna var á rosalega góðum stað og okkar leikur, Ásta kom alveg flott inn en það var bara ekki nóg. Að taka tvo af þremur titlum og lenda í 2. sæti hér er besti árangur sem ÍBV hefur náð í mörg herrans ár og við erum stolt af því.“