Finnum fyrir anda og meðbyr í félaginu

Ágúst Jóhannsson á hliðarlínunni í leiknum í gær.
Ágúst Jóhannsson á hliðarlínunni í leiknum í gær. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Valskvenna, gerði sitt lið að Íslandsmeisturum í gær er liðið vann einvígið sitt við ÍBV 3:0 í Vestmannaeyjum. Valskonur vel að þessu komnar og klárlega sterkari aðilinn í einvíginu, sem og leik gærdagsins. Lokatölur 25:23 í spennandi leik.

„Þetta eru hnífjöfn lið og búin að vera það í allan vetur. Mér fannst við eiga skilið að vinna þetta, búnar að vera betri í öllum leikjunum, þetta var erfiðasti leikurinn og tók mikið á liðið. Ég er ánægður með að við séum að klára þetta í þremur leikjum,“ sagði Ágúst strax eftir leik í miðjum fagnaðarlátunum.

„Frábær varnarleikur og markvarsla var lykillinn að þessu, við erum að keyra vel á þær en við erum með frábæra leikmenn. Ég er í þeirri forréttindastöðu að stýra frábærlega vel mönnuðu liði, ég er með frábæra aðstoðarþjálfara í Degi Snæ og Hlyni Morthens. Ég er með frábæran styrktarþjálfara, Viðar Bjarnason og liðsstjóra, sjúkraþjálfara og umgjörð hjá Val sem er upp á 10. Ég er mjög stoltur og feginn að þetta sé búið, ég er orðinn þreyttur, þetta hefur verið langt og erfitt tímabil hjá mér, ég er sáttur.“

Sara Sif Helgadóttir var fjarri góðu gamni er Valskonur töpuðu fyrir ÍBV í bikarúrslitaleik og í mikilvægum deildarleik fyrr á árinu. Hún er komin til baka og hefur verið frábær.

„Sara var að glíma við smá veikindi og meiðsli framan af, hún er búin að vinna vel í sínum málum og sýna frábæran karakter. Hún er auðvitað einn af allra bestu markvörðunum í deildinni.“

Valskonur stóðu í ströngu gegn Stjörnunni í undanúrslitunum, hvernig líður Ágústi núna miðað við hvernig honum leið í því einvígi?

„Þetta var erfitt á móti Stjörnunni, þær eru með frábært lið, við erum búnar að spila jafnbest yfir tímabilið. Við höfum bætt okkur jafnt og þétt í úrslitakeppninni og ég held að þegar öllu á botninn er hvolft þá eigum við skilið að vinna.“

Margir stuðningsmenn lögðu á sig sjóferð með Herjólfi frá Þorlákshöfn í gærmorgun til að verða vitni af Valskonum lyfta Íslandsmeistarabikarnum.

„Þetta er frábært fólk, við erum mjög þakklát þessum stuðningsmönnum sem hafa fylgt liðinu og við finnum fyrir þessum anda og meðbyr sem er í félaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert