Handboltamaðurinn Hans Óttar Lindberg varð í gær markahæsti leikmaðurinn í sögu þýsku 1. deildarinnar og sló hann þar með 15 ára gamalt met sem Suður-Kóreu maðurinn Kyung-Shin Yoon átti.
Hann skoraði 12 mörk í sigri Füsche Berlin á Minden í gær og sló þar með metið. Hann hefur nú skorað 2.907 mörk í þýsku 1. deildinni í 463 leikjum. Yoon skoraði 2.905 mörk fyrir Gummersbach og Hamburg á árunum 1996 til 2008.
Hans Óttar á íslenska foreldra en hefur alla tíð spilað fyrir danska landsliðið. Foreldrar Hans eru Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Erling Lindberg Hansson en þau koma bæði frá Hafnarfirði. Tómas á færeyska foreldra og þaðan er ættarnafnið komið.
Hans er 41 árs gamall en er enn í fullu fjöri og í toppbaráttu með Füchse Berlín og það er gríðarlegt afrek að leikmaður á þessum aldri skuli skora 12 mörk í leik í bestu deild í heimi.