Anton Rúnarsson mun yfirgefa þýska handknattleiksfélagið Emsdetten í sumar þegar samningur hans við félagið rennur út.
Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni á dögunum en Anton, sem er 34 ára gamall, gekk til liðs við þýska félagið frá uppeldisfélagi sínu Val sumarið 2021.
Emsdetten leikur í þýsku C-deildinni en liðið er komið áfram í umspil um sæti í þýsku B-deildinni á nýjan leik.
Anton var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar árið 2021 en í tilkynningu Emsdetten kemur fram að hann muni snúa aftur til Íslands í sumar.