Eyjamenn eru komnir í 2:0

Eyjamaðurinn Elmar Erlingsson brýst fram hjá Andra Má Rúnarssyni á …
Eyjamaðurinn Elmar Erlingsson brýst fram hjá Andra Má Rúnarssyni á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

ÍBV er komið í góða stöðu í einvíginu við Hauka um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik eftir sigur í öðrum leik liðanna á Ásvöllum í kvöld, 29:26.

Staðan er 2:0, Eyjamönnum í hag, og þeir geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli sínum með því að vinna þriðja leikinn á föstudagskvöldið.

Haukar voru með forystu fyrstu mínúturnar í fyrri hálfleik. Eftir 12 mínútur var staðan í leiknum 6:3 fyrir Hauka.

Haukamaðurinn Andri Már Rúnarsson reynir að ná skoti að marki …
Haukamaðurinn Andri Már Rúnarsson reynir að ná skoti að marki ÍBV á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá kviknaði á leikmönnum ÍBV sem skoruðu fjögur mörk í röð og komust yfir 7:6. Eftir það voru Eyjamenn yfir og mest með þremur mörkum. Haukar náðu að laga stöðuna rétt fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik var 13:11 fyrir ÍBV.

Varnarleikur beggja liða var mjög góður í fyrri hálfleik en það sem útskýrir muninn á liðunum var afleitur sóknarleikur Hauka sem var þeim ekki til sóma.

Haukamaðurinn Þráinn Orri Jónsson í faðmlögum við Svavar Ólaf Pétursson …
Haukamaðurinn Þráinn Orri Jónsson í faðmlögum við Svavar Ólaf Pétursson dómara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í síðari hálfleik var meira jafnræði með liðunum framan af. Haukar náðu að jafna í stöðunni 15:15 og komust yfir í stöðunni 16:15 og 17:16.

Þá tók lið ÍBV aftur völdin og var með forystuna það sem eftir var af leiknum, mest með fjórum mörkum.

Rúnar Kárason bar af í leiknum og skoraði 11 mörk fyrir Eyjamenn. Í liði Hauka skoraði Stefán Rafn Sigurmannsson níu mörk, þar af fimm úr vítaskotum. Það er því ljóst að ÍBV er í mjög góðri stöðu fyrir leikinn á föstudaginn.

Haukar 26:29 ÍBV opna loka
60. mín. Rúnar Kárason (ÍBV) skoraði mark Óstöðvandi í kvöld! Svakaleg negla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert