Gerum allt til þess að eyðileggja partíið

Ásgeir Örn Hallgrímsson lætur í sér heyra í kvöld.
Ásgeir Örn Hallgrímsson lætur í sér heyra í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, segir sína menn ekki af baki dottna þrátt fyrir að liðið sé 0:2 undir í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í handknattleik karla eftir 26:29-tap fyrir ÍBV í öðrum leik liðanna í kvöld.

„Þetta var hörkuleikur í kvöld. Það var mikil barátta og framan var ekki mikið skorað. Það var varnarbært lengi framan af. En svo náum við ekki að finna nægilega þægileg svör við þessari 5-1-vörn hjá þeim og gefum aðeins eftir varnarlega.

Það er það sem skilur að. Þetta er leikur smáatriðanna og þeir voru klókari, ég verð bara að viðurkenna það,“ sagði Ásgeir Örn í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Spurður að því hverju Haukar þyrftu að bæta úr til að freista þess að sækja sigur í þriðja leik liðanna í Vestmannaeyjum á föstudag sagði hann:

„Við þurfum klárlega að finna betri svör við þessari 5-1 vörn. Við vorum að gera allt of marga tæknifeila. Við vorum með mjög marga sendingafeila, sem er ekki gott. Svo vorum við að leyfa þeim, eins og Rúnari [Kárasyni] til dæmis, að skjóta of auðveldlega.

Við vorum ekki að mæta almennilega í hann og Aron [Rafn Eðvarðsson markvörður] þarf að taka nokkra bolta af þessu. Þetta eru svona boltar sem mér finnst að hann eigi að taka.“

Rúnar skoraði 11 mörk og var markahæstur í leiknum.

Ásgeir Örn sagði Hauka staðráðna í því að spilla gleðinni fyrir Eyjamönnum í þriðja leik, þar sem ÍBV getur með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er ekki nokkur spurning. Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að eyðileggja það partí. Við erum ekki að fara að gefast upp,“ sagði hann ákveðinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert