Karlotta Óskarsdóttir, sem lék með bæði Val og Selfossi í úrvalsdeild kvenna í handbolta í vetur, er gengin til liðs við 1. deildarlið Gróttu og hefur samið við félagið til tveggja ára.
Karlotta er tvítug, örvhent, og leikur bæði sem hornamaður og skytta. Hún lék 16 af 21 leik Vals í úrvalsdeildinni í vetur og skoraði átta mörk, og þá var hún lánuð um skeið til Selfyssinga þar sem hún lék fimm leiki og skoraði 12 mörk.
Karlotta lék síðan alla sjö leiki Vals í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn og skoraði í þeim fjögur mörk og varð Íslandsmeistari með Hlíðarendaliðinu.
Þá spilaði hún tíu leiki með ungmennaliði Vals í 1. deildinni og skoraði þar 34 mörk.
Grótta hafnaði í þriðja sæti 1. deildarinnar í vetur en féll út í umspili um sæti í úrvalsdeildinni.