Þeir komast upp með að drepa hraðann

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði níu mörk fyrir Hauka í kvöld.
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði níu mörk fyrir Hauka í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stefán Rafn Sigurmannsson var svekktur eftir tap Hauka gegn ÍBV, 29:26, í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta á Ásvöllum í kvöld.

Stefán Rafn átti fínan leik og skoraði níu mörk, þar af fimm úr vítaskotum.

„Þetta er mjög svekkjandi, við brotnum bara, reyndar aðeins seinna heldur en í leiknum úti í Eyjum. Það er bara mjög svekkjandi að þetta sé að gerast aftur hér í kvöld og við bara gefum eftir. Við þurfum að ná meira flæði í okkar leik og vera skipulagðari í sóknarleiknum í næsta leik,“ sagði Stefán við mbl.is eftir leikinn. 

Er komin þreyta í Haukaliðið?

„Nei mér finnst við vera mjög frískir og við sýndum það bæði úti í Eyjum og núna í kvöld að við hlaupum mikið en mér finnst þeir vera að komast upp með að drepa hraðann í leiknum með löngum sóknum, láta sig detta, fá endalausan tíma til að standa upp og leiðrétta sig. Mér finnst þeir tuða og spjalla við dómarann og leikurinn fær ekkert að flæða síðasta korterið, bæði úti í Eyjum og hér í kvöld.”

Þið eruð komnir upp við vegg í einvíginu. Hverjir eru möguleikarnir fyrir leikinn úti í Eyjum? 

„Við ætlum að vinna leikinn úti í Eyjum og við munum gefa allt sem við eigum í leikinn á föstudag,” sagði Stefán Rafn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert