Bikarmeistararnir styrkja sig

Leó Snær Pétursson og Andri Þór Helgason leika með Aftureldingu …
Leó Snær Pétursson og Andri Þór Helgason leika með Aftureldingu næstu tvö árin. Ljósmynd/Afturelding

Handknattleiksdeild Aftureldingar hefur samið við Andra Þór Helgason og Leó Snæ Pétursson um að leika með karlaliðinu næstu tvö ár.

Afturelding varð bikarmeistari fyrr á árinu og féll úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins eftir tap fyrir Haukum í oddaleik.

Andri Þór er 28 ára gamall vinstri hornamaður og kemur frá Gróttu, þar sem hann hefur leikið undanfarin þrjú ár.

Leó Snær er þrítugur hægri hornamaður sem hefur leikið með Stjörnunni undanfarin sex ár.

Hornamennirnir eru báðir uppaldir hjá HK og urðu Íslandsmeistarar með liðinu árið 2012.

„Báðir eru þeir reynslumiklir menn sem hafa sannað sig í Olísdeildinni undanfarin ár. Þeir eru góðir skotmenn og hraðaupphlaupsmenn svo eitthvað sé nefnt og ekki síður öflugir liðsmenn.

Andri og Leó eru frábær viðbót við hópinn okkar og styrkja okkur verulega fyrir komandi átök í Olísdeildinni,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild Aftureldingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert