Lovísa tekur slaginn með Val

Lovísa Thompson er gengin aftur í raðir Vals.
Lovísa Thompson er gengin aftur í raðir Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lovísa Thompson, landsliðskona í handknattleik, hefur skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild Vals og tekur slaginn með kvennaliðinu á ný.

Lovísa fór frá Val til danska úrvalsdeildarliðsins Ringköbing síðastliðið sumar en stoppaði stutt þar.

Undir lok síðasta árs stóð til að hún færi til norska úrvalsdeildarliðsins Tertnes en meiðsli á hásin komu í veg fyrir vistaskiptin.

Undanfarna mánuði hefur Lovísa verið að jafna sig eftir aðgerð á hásin en í tilkynningu frá handknattleiksdeild Vals segir að hún ætti að vera reiðubúin að hefja æfingar í byrjun ágúst.

„Lovísu þekkja allir en hún var lykilmaður í Valsliðinu eftir að hún kom til félagsins frá Gróttu og hefur unnið alla titla sem í boði eru hérlendis ásamt því að vera fastamaður í A-landsliði kvenna.

Frábærar fréttir að þessi magnaði leikmaður sé aftur komin á Hlíðarenda!“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert