Var agaðri og lét leikinn koma til mín

Rúnar Kárason reynir að brjóta sér leið framhjá Haukum í …
Rúnar Kárason reynir að brjóta sér leið framhjá Haukum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum í svolitlum vandræðum í sókninni. Mér fannst við koma svolítið betur til leiks en í síðasta leik. Við vorum hreyfanlegri en Haukarnir komu með allt sem þeir áttu og gerðu það vel, þetta er rosa gott lið.

Við vorum smá tíma að snúa þessu okkur í vil en þegar leið á leikinn urðum við þolinmóðari og markvissari og það byrjaði að draga af þeim.

En þetta var hörkuleikur og það er líka heppni í þessu. Mér fannst við gera þetta vel og halda haus vel. Þeir fóru að drífa sig aðeins og við gengum á lagið,“ sagði Rúnar Kárason stórskytta ÍBV í samtali við Morgunblaðið eftir sigurinn á ÍBV í gærkvöld.

Hann skoraði 11 mörk í leiknum og var að vonum sáttur við það.

„Já, já, það er alltaf gaman þegar hlutirnir ganga vel. Ég var líka kannski aðeins agaðri en í síðasta leik þar sem ég var fullbráður á köflum. Ég náði að láta leikinn koma til mín frekar en að þvinga það fram.

Ég skýt 3-4 sinnum í gegnum Aron [Rafn Eðvarðsson]. Alveg eins og í síðasta leik, þá skaut ég beint í hann 2-3 sinnum og hann varði. Suma daga er þetta svona og aðra daga er þetta hinsegin,“ sagði Rúnar einnig.

Liðin mætast næst í Vestmannaeyjum á föstudagskvöld, þar sem ÍBV getur með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Við vitum það vel að það er ekkert að fara að gerast af sjálfu sér. Þó við höfum unnið síðasta leik þá vissum að við þyrftum að hafa alveg helling fyrir því í dag [í gær] og það varð bara raunin.

Við vitum að Haukarnir munu mæta með allt sem þeir eiga á föstudaginn og við þurfum að mæta með allt okkar til þess að eiga möguleika í það,“ sagði hann að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert