Nýliðar Karlskrona í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla hafa samið við Dag Sverri Kristjánsson um að leika með liðinu næstu tvö tímabil.
Dagur Sverrir kemur frá ÍR, sem féll úr úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili.
Hann er 23 ára örvhent skytta sem skoraði 115 mörk í 22 leikjum fyrir ÍR í deildinni í vetur.
Dagur Sverrir er þriðji Íslendingurinn sem semur við Karlskrona fyrir næsta tímabil. Áður höfðu Ólafur Andrés Guðmundsson, sem kemur frá Amicitia Zürich í Sviss, og Valsarinn Þorgils Jón Svölu Baldursson skrifað undir samninga ásamt þýska markverðinum Phil Döhler, sem kemur frá FH.
Í tilkynningu á heimasíðu Karlskrona segir að Dagur Sverrir sé menntaður hagfræðingur og muni samhliða því að leika fyrir liðið starfa hjá tæknifyrirtækinu Cleura í borginni.
„Það er mjög ánægjulegt að ganga til liðs við Karlskrona. Ég heimsótti félagið í apríl og leist virkilega vel á það og borgina.
Mér auðnaðist líka að sjá liðið vinna í umspilinu og það var dásamleg upplifun, bæði að sjá hversu gott liðið er og að upplifa stemninguna í keppnishöllinni.
Félagið bauð upp á hentuga lausn þar sem ég get spilað handbolta á hæsta stigi og starfað um leið hjá spennandi fyrirtæki,“ sagði Dagur Sverrir í samtali við heimasíðu Karlskrona.