Ég elska að spila svona leiki

Ólafur Ægir Ólafsson sækir að Eyjamönnum í kvöld.
Ólafur Ægir Ólafsson sækir að Eyjamönnum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ólafur Ægir Ólafsson, leikmaður Hauka, hefur látið lítið fyrir sér fara í úrslitakeppninni til þessa, átta mörk í síðustu fimm leikjunum hans. Hann sprakk gjörsamlega út í kvöld er hann skoraði átta mörk fyrir Hauka sem kafsigldu Eyjamönnum í þeirra eigin partýi í Vestmannaeyjum í kvöld.

Lokatölur í leiknum 28:34 en Ólafur Ægir setti tóninn strax í upphafi leiks þar sem hann lét vaða á mark Eyjamanna. Hann valdi sér einnig góð færi og fann sér svæði til að stinga sér í gegnum vörn ÍBV.

„Ég held að þetta hafi verið frábær varnarleikur, mér finnst við hafa átt góðar rispur í þessum leikjum en oft brotnað eftir 40-45 mínútur, núna héldum við út og héldum seiglu og ró, það skóp þetta held ég,“ sagði Ólafur en Haukar komu pressulausir inn í leikinn að hans mati.

„Algjörlega, það var allt undir hjá þeim hérna í Eyjum, við vorum líka með bakið upp við vegg, að sama skapi hafði enginn trú á að við myndum vinna í Eyjum.“

Ólafur Ægir hefur lítið verið að skjóta að utan í síðustu leikjum en hann gaf tóninn strax í upphafi með skotum að utan, var það eitthvað sem Ásgeir bað hann um að gera meira af?

„Þetta var frá honum og mér og Geira líka, þetta hefur verið mikið vinstra megin og þeir hafa borið hitann af þessu. Ef við ætlum að vera með í þessari úrslitakeppni þá þurfum við framlag frá öllum leikmönnum.“

Þetta var besti leikur Hauka í dag í einvíginu til þessa, ef litið er yfir leikina sem heild. Jafnt og þétt tóku Haukar leikinn yfir og kæfðu Eyjamenn. Er eitthvað sem segir að Haukar geti ekki klárað þetta einvígi?

„Nei, mér finnst ekki, við erum með mjög gott lið og þurfum að halda haus í 60 mínútur, við megum ekki fara í eitthvað bull og vitleysu seinasta korterið.“

Stemningin var frábær í Eyjum í dag hjá stuðningsmönnum beggja liða.

„Ég elska að spila svona leiki, þetta er ástæðan fyrir því að við erum í handbolta, það var geggjað að sjá Haukamennina en það er líka geggjað að spila fyrir framan Eyjamennina, ég dýrka þetta.“

Mótiveruðu Haukar sig fyrir þennan leik á þann hátt að þeir væru komnir til að skemma partýið?

„Ég get alveg viðurkennt það að við vissum að það yrði eitthvað húllumhæ hérna, við vorum ekki að fara að vera hérna á eyjunni á meðan það gerðist.“

Haukar hafa slegið út ríkjandi Íslandsmeistara og ríkjandi bikarmeistara á leið sinni í úrslitaleikinn.

„Mér finnst við vera búnir að vera í stíganda eftir áramót, við gátum nánast ekki neitt fyrir áramót en svo fórum við að fá leikmenn inn og svona, ég held að það sé stígandi í okkar leik. Við sjáum í dag um leið og við náum að spila góðar 60 mínútur, þá skorum við 34 mörk hérna á móti ÍBV í Eyjum, í þessari stemningu. Mér finnst vera mikill stígandi og ég held að næsti leikur verði alveg jafn góður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert