Handknattleiksmaðurinn Egill Magnússon hefur komist að samkomulagi við uppeldisfélag sitt Stjörnuna um að leika með liðinu næstu tvö tímabil.
Egill kemur frá FH, þar sem hann hefur leikið undanfarin þrjú ár.
Hann er 27 ára gömul rétthent skytta sem lék upp alla yngri flokka með Stjörnunni og hóf meistaraflokksferilinn með liðinu.
Þaðan lá leiðin til Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem Egill lék í tvö ár, áður en hann fór aftur heim í Stjörnuna og lék þar í tvö ár.
„Egill er öflugur leikmaður sem við í Garðabænum erum gríðarlega ánægð að fá aftur heim.
Hann mun styrkja lið Stjörnunnar mikið með sinni reynslu og passar vel inn í þær breytingar sem liðið er að ganga í gegnum núna,“ sagði í tilkynningu frá handknattleiksdeild Stjörnunnar.