„Þetta var æðislegt hjá okkur í kvöld,“ sagði kampakátur Guðmundur Bragi Ástþórsson í samtali við mbl.is eftir 34:28-sigur hans og liðsfélaga hans í Haukum á ÍBV í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld.
„Sóknarleikurinn er einn sá besti sem ég hef séð hjá okkur og við héldum út allan leikinn og misstum aldrei niður dampinn,“ sagði Guðmundur og hélt áfram:
„Það var magnað að spila þennan leik. Geggjuð læti, geggjuð stemning og frábærir áhorfendur. Þetta var þvílíkt stuð. Það er alltaf gaman að koma til Eyja að spila við gott lið ÍBV. Þeir eru sterkir og áhorfendurnir sömuleiðis.“
Með sigrinum minnkuðu Haukar muninn í einvíginu í 2:1 og kom í veg fyrir að ÍBV yrði Íslandsmeistari á sínum heimavelli. Þess í stað mætast þau í fjórða sinn á Ásvöllum á mánudag.
„Mér fannst enginn hafa trú á okkur og það er rosalega gaman að vinna þegar svo er. Þeir voru tilbúnir í eitthvað partí í kvöld og við komum í veg fyrir það, sem er góð tilfinning.
Þetta er ekki nærri því búið. Við ætlum að spila tvo leiki í viðbót í þessu einvígi. Við ætlum að spila aftur vel á mánudaginn og svo vinna þá aftur hér,“ sagði Guðmundur Bragi.