Eyjamaðurinn Dagur Arnarsson var skiljanlega súr þegar hann ræddi við mbl.is eftir 28:34-tap ÍBV gegn Haukum í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í Vestmannaeyjum í kvöld. ÍBV hefði orðið Íslandsmeistari með sigri.
„Það er erfitt að kyngja þessu. Það var fullt hús af fólki og rúmlega það. Við ætluðum okkur að fagna með okkar fólki á heimavelli, en það verður að bíða fram á mánudag,“ sagði Dagur við mbl.is eftir leik.
Eyjamenn létu dómara leiksins fara í taugarnar á sér á köflum og það kom niður á spilamennsku liðsins. Dagur var sammála því, án þess að orða það nákvæmlega þannig.
„Við þurftum að horfa inn á við og ekki láta utanaðkomandi atriði fara með okkur. Við áttum að einbeita okkur að okkur sjálfum. Við vorum ólíkir okkur, því við höfum verið góðir í að láta ekki hluti sem skipta ekki máli fara með okkur. Það svíður mest í dag að hafa ekki klárað þetta með fólkinu okkar,“ sagði hann.
Íþróttahúsið í Vestmannaeyjum var troðfullt og var stemningin mögnuð. Dagur viðurkennir að ef til vill hafi spennustig Eyjamanna verið of hátt. „Það hlýtur að hafa spilað inn í. Við verðum að læra af því. Við komum ferskir á mánudaginn og klárum þetta,“ sagði Dagur og hrósaði svo sveitungum sínum.
„Þetta var yndislegt og það er svo svekkjandi að geta ekki skilað betri úrslitum, með rúmlega heilt bæjarfélag á bakinu. Það voru margir sem komu frá útlöndum, bara til að horfa á þennan leik. Það er leiðinlegt að klára þetta ekki fyrir framan þá. Nú siglum við bikarnum heim úr Ásvöllum,“ sagði Dagur.