Rúnar Kárason var langbestur Eyjamanna er ÍBV tapaði gegn Haukum í 3. leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í gærkvöldi. Rúnar skoraði 13 mörk og endaði margar sóknir Eyjamanna sem virtust ætla að sigla í strand.
Mörkin þrettán dugðu ekki þar sem ÍBV tapaði í fyrsta sinn í úrslitakeppninni og það með sex marka mun 28:34.
„Við náum ekki að stoppa þá í vörninni og fáum ekki markvörsluna sem til þarf til að vinna svona leiki. Við verðum að gera betur í næsta leik, bæði varnarlega og sóknarlega,“ sagði Rúnar að leik loknum.
Stemningin í Eyjum var frábær og segir Rúnar það svekkjandi að ná ekki að nýta það.
„Það er ógeðslega svekkjandi, manni líður ömurlega yfir því að hafa ekki náð að borga til baka, því þetta er svo yndislegt, hrós á alla eyjuna fyrir þetta,“ sagði Rúnar en hvað þarf liðið að gera betur til að vinna leik 4?
„Við þurfum að fá fleiri stopp í vörninni, þeir voru að skora alltof auðveldlega, það er rosalega erfitt að berjast við þeirra línumenn og við förum út af í tvær mínútur alltaf. Að sama skapi fær Kári Kristján ekkert fyrir sinn snúð og mér finnst það alveg hrikalega ósanngjarnt, ég er ósáttur með það í dag.“
Eyjamenn fara í leik 4 á mánudaginn og geta unnið titilinn, hvernig ætla þeir að fara að því?
„Við ætlum að fara betur með færin okkar, við fáum fullt af þeim í þessum leik en látum Aron verja frá okkur. Við þurfum meira framlag frá öllum til að ná þessu,“ sagði Rúnar en hann gat lítið svarað fyrir hvort spennustig leikmanna hafi verið rangt stillt.
„Ekki hjá mér persónulega,“ sagði Rúnar að lokum en hann virtist strax kominn með hugann við fjórða leikinn sem fer fram á mánudaginn.